Erlent

Spennan magnast á Kóreuskaga

Suðurkóreski herinn skaut viðvörunarskotum að hermönnum frá Norður-Kóreu sem fóru yfir landamærin á milli ríkjanna í morgun. Búist er við að Norður-Kóreumenn sprengi kjarnorkusprengju í tilraunaskyni á næstu dögum.

Að því er fram kemur í yfirlýsingu yfirmanns herafla Suður-Kóreu var ákveðið að skjóta í átt að fimm norðurkóreskum hermönnum eftir að í ljós kom að þeir voru komnir um þrjátíu metra inn fyrir vopnahléslínuna sem skilur löndin tvö að. Stærstur hluti herafla beggja ríkjanna, samtals um tvær milljónir manna, er staðsettur við landamærin og því eru atvik á borð við þetta ekkert einsdæmi.

Eftir að Norður-Kóreumenn lýstu því yfir í vikunni að þeir hygðu á tilraunir með kjarnorkusprengjur er það hins vegar litið alvarlegum augum enda er spennan á Kóreuskaganum í hámarki. Heimildir kínversku og bandarísku leyniþjónustunnar herma að allt sé til reiðu fyrir tilraunasprenginguna, líklega verður hún gerð á tveggja kílómetra dýpi í yfirgefinni kolanámu í norðurhluta landsins annað hvort á morgun eða á mánudaginn.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gaf út yfirlýsingu í gær þar sem Norður-Kóreumenn voru eindregið varaðir við kjarnorkutilraunum og þeir hvattir að snúa aftur að samningaborðinu við ríkin fimm sem þeir áttu til skamms tíma í viðræðum við. Haldi þeir sínu striki geta þeir aftur á móti von á refsiaðgerðum. Stjórnvöld í Pjongjang hafa brugðist við boðum öryggisráðsins með því að kalla varasendiherra sinn hjá ráðinu heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×