Erlent

Taka Íslendinga til fyrirmyndar

Norðmenn opna Barnahús að íslenskri fyrirmynd en þar er sinnt málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.

Í Barnahúsi er meðal annars hægt að taka skýrslu af börnum, sem óttast er að hafi sætt kynferðisofbeldi, á einum stað í eins jákvæðu umhverfi og frekast er kostur í stað þess að flytja þau á milli staða og láta þau endurtaka sögu sína fyrir fjölda fólks. Þetta fyrirkomulag þykir hafa gefist svo vel að Norðmenn búa sig nú undir að taka sambærilega stofnun í notkun. Reiknað er með að það gerist í janúar á næsta ári en málið á sér hins vegar þó nokkurn aðdraganda.

1.200 börn hafa heimsótt Barnahús frá því það var tekið í notkun fyrir átta árum. Þetta er líklega hærra hlutfall en annars staðar á Norðurlöndunum en forsvarsmenn hússins segja að af því megi þó ekki draga þá ályktun að kynferðisofbeldi gegn börnum sé tíðara hér á landi heldur geri opinská umræða það að verkum að tilkynnt sé um slíkt ofbeldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×