Erlent

Flugrán í Tyrklandi

Tyrkneskri farþegaþotu á leið frá Albaníu til Tyrklands var rænt í dag. Um eitthundrað manns voru um borð Flugvélin sendi frá sér tilkynningu um flugránið yfir grískri lofthelgi og voru grískar orrustuþotur sendar til móts við hana. Þær fylgdu henni út úr grískri lofthelgi og hefur nú verið staðfest að vélin lenti heilu og höldnu í Brindisi á Suður Ítalíu.

Fregnir af flugráninu eru óljósar ennþá, en tyrknesk sjónvarpsstöð hefur eftir lögreglunni að vélinni hafi verið rænt til þess að mótmæla fyrirhugaðri heimsókn Benedikts sextánda páfa, til Tyrklands í september. Sjónvarpsstöðin segir að flugræningjarnir séu reiðubúnir til þess að gefast upp.

Benedikt páfi er óvinsæll í Tyrklandi, bæði vegna ummæla sinna um islam, og eins vegna þess að hann hefur lagst gegn aðild landsins að Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×