Erlent

Amnesty ætla að berjast fyrir afnámi nýrra hryðjuverkalaga

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti umdeilt frumvarp um meðferð grunaðra hryðjuverkamanna í gær, og felldi breytingatillögu þess efnis að allir þeir sem eru í haldi geti farið með mál sitt fyrir dómstóla. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa þegar tilkynnt að þau muni berjast fyrir afnámi laganna, sem þau telja gefa grænt ljós á pyntingar og önnur mannréttindabrot.

Sérstakar hernefndir munu rétta yfir grunuðum hryðjuverkamönnum. Repúblikanar segja lögin nauðsynleg svo hryðjuverkamenn fái frekar makleg málagjöld og einnig svo starfsmenn leyniþjónustunnar CIA verði ekki kærðir fyrir stríðsglæpi fyrir að yfirheyra hina grunuðu. Repúblikaninn Arlen Specter lagði fram breytingatillögu við frumvarpið, þar sem hann telur það grundvallarréttindi allra að geta skotið máli sínu til almennra dómstóla. Tillagan var felld.

George Bush, Bandaríkjaforseti var mjög ánægður með að frumvarpið væri í þann mund að komast í gegnum öldungadeildina, en fulltrúadeildin hafði þegar samþykkt það.

Mannréttindasamtök hafa hins vegar lýst áhyggjum sínum af því að Genfarsáttmálinn verði ekki virtur og ómögulegt verði að fylgjast með því hvernig farið er með fanga sem falla undir þessi lög. Það taka andstæðingar frumvarpsins undir.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×