Körfubolti

Nowitzki framlengir við Dallas

Dirk Nowitzki hefur framlengt samning sinn við Dallas Mavericks
Dirk Nowitzki hefur framlengt samning sinn við Dallas Mavericks NordicPhotos/GettyImages

Þýski stjörnuleikmaðurinn Dirk Nowitzki hefur framlengt samning sinn við NBA lið Dallas Mavericks til þriggja ára og fær fyrir það um 60 milljónir dollara samkvæmt heimildarmanni ESPN sjónvarpsstöðvarinnar.

Nowitzki er 28 ára gamall og var samningsbundinn félaginu út komandi tímabil sem hefði fært honum 16 milljónir dollara í laun fyrir árið. Nýr samningur gerir það að verkum að hann verður á launum hjá félaginu þangað til hann verður 33 ára gamall og væntanlega rúmum fjórum milljörðum króna ríkari.

Nowitzki gekk í raðir Dallas árið 1998 og var þá gjörsamlega óþekktur leikmaður í annari deildinni í Þýskalandi. Hann kom til Dallas undir leiðsögn Don Nelson og hefur vaxið ört sem leikmaður æ síðan.

Hann skoraði 26,6 stig að meðaltali á síðasta tímabili, hirti 9 fráköst og var í byrjunarliði í Stjörnuleiknum annað árið í röð, en það hafði engum leikmanni í sögu Dallas tekist áður. Hann hefur verið valinn í Stjörnuliðið fimm ár í röð og varð þriðji í kjörinu á verðmætasta leikmanni ársins í NBA á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×