Innlent

Mótmælir harðlega orðum Sigurgeirs

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, mótmælir harðlega orðum framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands um að tillögur flokksins til lækkunar á matvælaverði séu tilraun til að leggja landbúnaðinn í rúst.

Samfylkingin kynnti á laugardag tillögur sem miða að því að lækka matarkostnað heimilanna í landinu um 200 þúsund krónur á ári. Tillögurnar fela meðal annars í sér lækkun vörugjalda og afnám tolla í áföngum. Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, sagði í fréttum í gær að hugmyndirnar væru tilraun til að leggja landbúnaðinn í rúst en því mótmælir Ingibjörg.

Í Íslandi í bítið í morgun sagði hún: „Ég lýsi yfir fullkominni vanþóknun á því hvernig þessi framkvæmdastjóri Bændasamtakanna talaði og hlýt að lýsa yfir algjöru vantrausti á þessum einstaklingi. Við erum hér sem flokkur að leggja fram tillögur, við erum kjörnir fulltrúar almennings í landinu, hluti af almannavaldinu, okkur ber auðvitað að hafa skoðun á því og eftirlit með því hvernig skattpeningum fólks er varið og þá kemur þessi fulltrúi hagsmunasamtakanna fram og gerir í raun hróp að Samfylkingunni og biður henni bölbæna."

Ingibjörg segir að orð Sigurgeirs séu slík frekja að hún hafi aldrei orðið vitni að öðru eins. „Ég er alveg tilbúin að ræða við Bændasamtökin um hvað eina sem lýtur að bættum kjörum og stöðu bænda í landinu og ég tel að bændur eigi samleið með neytendum í þessu efni en ég lýsi yfir fullkomnu vantrausti á þessum starfsmanni Bændasamtakanna," sagði Ingibjörg enn fremur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×