Erlent

Taugaveiki sögð hafa dregið bin Laden til dauða

Franskt blað fullyrðir í dag að Osama bin Laden, leiðtogi al-Kaída hryðjuverkasamtakanna, sé allur. Hann hafi dáið úr taugaveiki í Pakistan í síðasta mánuði. Ekki hefur verið hægt að staðfesta fréttir blaðsins.

Franska héraðsblaðið L´Est Republicain greinir frá því í dag að bin Laden hafi sýkst af taugaveiki og látist síðla í ágúst. Vitnað er í leyniskýrslu frönsku leyniþjónustunnar þar sem segir að yfirvöld í Sádí Arabíu séu sannfærð um að bin Laden hafi látist. Að sögn blaðsins var Jacques Chirac, Frakklandsforseta, og Dominique de Villepin, forsætisráðherra, gerð grein fyrir innihaldi skýrslunnar.

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, vildi lítið tjá sig um málið þegar leitað var eftir því í dag. Hann sagði þó að hann hefði fyrirskipað varnarmálaráðherra landsins að rannsaka hvernig skýrslan hefði lekið til fjölmiðla.

Chirac segir ekki hafa verið hægt að staðfesta frétt blaðsins með nokkrum hæti og því vildi hann ekki tjá sig um málið.

Pakistanar draga frétt blaðsins í efa. Talskona pakistanska utanríkisráðuneytisins bendir á að L´Est Republicain sé lítt þekkt blað auk þess sem fréttin virðist nokkuð langsótt. Stjórnvöld í Pakistan hafi ekki fengið neinar upplýsingar í þessa veruna.

Bandarísk yfirvöld segja ekki hafa reynst hægt að staðfesta þessar fréttir.

Bin Laden hefur farið huldu höfði síðan árið 2001 þegar alþjóðlegt herlið, undir stjórn Bandaríkjamanna, hrakti Talíbana frá völdum í Afganistan. Hann mun hafa flúið þaðan til Pakistan þar sem hann er sagður hafa farið huldu höfði í fjallahéruðum við landamærin.

Síðasta myndbandsupptaka af bin Laden var birt síðla árs 2004. Fjölmargar hljóðupptökur hafa þó verið sendar út fyrr á þessu ári en gæði þeirra þótt það slæm að ekki hefur verið hægt að staðfesta svo óyggjandi sé að um rödd bin Ladens hafi verið að ræða og hversu nýlegar upptökurnar séu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×