Erlent

Vopnahlésbrot segja Líbanar

Ísraelar gerðu snemma í morgun skyndiáhlaup á bæinn Boudai í Austur-Líbanon, að sögn til að koma í veg fyrir flutning vopna til Hizbollah-skæruliða. Forsætisráðherra Líbanons segir þetta freklegt brot á vopnahlé í landinu en Ísraelar segjast þvert á móti vera að fylgja skilmálum þess.

Áætlað er að senda fimmtán þúsund manna líbansk herlið til suðurhluta landsins til viðbótar jafnstóru alþjóðlegu friðargæsluliði á vegum Sameinuðu þjóðanna. Nú hóta Líbanar því að stöðva liðsflutninga ef Sameinuðu þjóðirnar skýri ekki viðhorf sitt til skyndiáhlaups Ísraela á Bekaa-dal í nótt og í morgun. Ísraelar segjast hafa verið að koma í veg fyrir flutning vopna til Hizbollah-skæruliða.

Fouad Siniora, forsætisráðherra, segir Ísraela hafa brotið gegn vopnahléssamkomulagi sem hefur verið í gildi frá því á mánudaginn.

Mark Regev, talsmaður ísraelska utanríkisráðuneytisins, segir Ísraela ekki hafa brotið gegn vopnahlénu, þvert á móti hafi þeir verið að bregðast við brotum á því í Líbanon. Ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sé skýr. Þar segir að Hizbollah-liðar megi ekki nota tíma vopnahlésins til að safna vopnum og taka við fleiri flugskeytum og eldflaugum frá Sýrlandi og Íran. Það hafi verið að gerast og Ísraelar brugðist við og komið í veg fyrir það.

Ísraelar segja þörf á aðgerðum á meðan gæslulið sé ekki komið á staðinn og tilbúið til að gegna starfi sínu. Aðgerðin í nótt og í morgun hafi heppnast vel. Hizbollah-liðar segjast hins vegar hafa hrundið árásinni.

Hassan Hobballah, þingmaður Hizbollah, segir árásina í morgun sönnun þess að Ísraelar haldi áfram árásarstefnu sinni gagnvart Líbanon og sé sama um ályktanir Öryggisráðsins. Líbanar leggi áherlsu á að þeir séu að gera árás á land þeirra og ásælist það. Það sem gerðist í morgun sé því ekkert nýtt en andspyrnumenn ætli að berjast gegn Ísraelum.

Einn hermaður og þrír skæruliðar eru sagðir hafa fallið í átökunum og sex særst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×