Sport

Miami Heat komið í NBA-úrslitin í fyrsta sinn

Dwyane Wade sést hér með bikarinn sem Miami fékk þegar liðið vann Austurströndina.
Dwyane Wade sést hér með bikarinn sem Miami fékk þegar liðið vann Austurströndina. AP

Miami Heat tryggði sér í nótt sæti í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfubolta í fyrsta sinn þegar liðið vann Detroit Pistons, 95-78, í sjötta leik liðanna á Flórída. Miami Heat vann þar með einvígið 4-2 en Pistons-liðið var með bestan árangur allra liða í NBA-deildinni í vetur. Shaquille O´Neal var með 28 stig, 16 fráköst og 5 varin skot í leiknum.

Það skipti ekki máli fyrir Miami Heat að lykilmaður þeirra, Dwyane Wade, væri með flensu og gat ekki beitt sér að fullu. Wade endaði leikinn með 14 stig og 10 stoðsendingar og hjálpaði liðinu en hefur oft þurft að leggja til stærri tölur svo Miami vinni. Detroit-liðið réði ekkert við Shaq sem nýtti 12 af 14 skotum sínum og þá átti Jason Williams frábæran leik. Williams skoraði 21 stig og hitti meðal annars úr fyrstu 10 skotum sínum í leiknum.

Miami er þar með komið í úrslitaeinvígið í fyrsta sinn í 18 ára sögu félagsins og þangað var líka kappi eins og Alonzo Mourning að komast í fyrsta skipti. Þjálfarinn Pat Riley var hinsvegar að koma þriðja liðinu í úrslitin en hann hafði áður farið með Los Angeles Lakers og New York Knicks alla leið í NBA-úrslitin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×