Innlent

Verður þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtækið ef af kaupum verður

Actavis Group gæti orðið þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi innan nokkurra mánaða ef óformlegu tilboði félagsins í króatíska samheitalyfjafyrirtækið PLIVA verður tekið. Velta Actavis myndi aukast um 70 prósent og starfsmönnum fjölga um ríflega helming við kaupin.

Króatíska fyrirtækið PLIVA er um 85 ára gamalt og sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu samheitalyfja. Það er skráð á hlutabréfamarkað bæði í Króatíu og Lundúnum og er markaðsvirði félagsins metið 110 milljarðar króna.

Tilboð Actavis hljóðar upp á 570 króatískar kúnur á hlut sem samkvæmt forráðamönnum Actavis er 35 prósenta yfirverð miðað við geng hlutabréfa félagsins síðastliðna þrjá mánuði. Tilboðið er gert með fyrirvara um áreiðanleikakönnun.

Ef af kaupum Actavis á PLIVA verður mun velta þess fyrrnefnda fara úr áætluðum 100 milljörðum króna á þessu ári í 170 milljarða. Þá mun starfsmönnum Actavis fjölga úr tíu þúsund í 16 þúsund eða um 60 prósent. Þetta þýðir að gangi kaupin eftir verður Actavis þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi en það er nú það fimmta stærsta.

Að sögn Halldórs Kristmannssonar, yfirmanns ytri og innri samskipta hjá Actavis, eru næstu skref í málinu að hefja formlegar viðræður við stjórnendur Pliva um kaupin og í framhaldinu gera áreiðanleikakönnun á fyrirtækinu sem á að taka um 4-6 vikur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×