Innlent

Pólitík réð því ekki að Byko fékk lóð í Garðabæ

Urriðaholt hafnar því með öllu að pólitísk áhrif hafi orðið til þess að Byko fékk lóð í Garðabæ, en ekki Bauhaus. Viðræður við Bauhaus hafi hafist mánuði eftir að ljóst var orðið að Ásdís Halla Bragadóttir myndi taka við forstjórastarfi hjá Byko. Bauhaus, Byko og Húsasmiðjan buðu öll í lóðina í Garðabæ, en að lokum féll hún Byko í skaut.

Stjórn Urriðaholts segir fráleitt að ákvarðanir um sölu lóðarinnar tengist á nokkurn hátt hagsmunum Ásdísar Höllu Bragadóttur, fyrrverandi bæjarstjóra Garðabæjar, sem nú er forstjóri Byko.

Yfirmaður þróunarsviðs Bauhaus hélt því fram í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær að augljóst samhengi væri á milli ráðningar Ásdísar Höllu Bragadóttur, fyrrverandi bæjarstjóra Garðabæjar til Byko, og þess að Bauhaus hafi ekki fengið lóð í Garðabæ. Afstaða Urriðaholts, sem á lóðina sem um ræðir, hafi breyst á einni nóttu og allt í einu hafi allar kröfur breyst. Síðan hafi Byko fengið lóðina og samhengið sé augljóst. Í raun hefur fréttastofa heimildir fyrir því að fyrrverandi stjórn Húsasmiðjunnar hafi upplifað þetta á svipaðan hátt, það er að með ráðningu Ásdísar Höllu til Byko hafi afstaða Urriðaholts skyndilega breyst.

Þessu hafnar stjórn Urriðaholts hins vegar með öllu og segir að viðræðurnar við Bauhaus hafi hafist mánuði eftir að vitað var að Ásdís Halla færi til Byko. Staðreyndin sé sú að viðræðurnar hafi byrjað ágætlega, en síðan þróast til verri vegar. Þar sé ekki síst við forsvarsmenn Bauhaus að sakast, því að þeir hafi breytt sínum skilyrðum fyrir samkomulaginu en ekki Urriðaholt, eins og þróunarstjóri Bauhaus hélt fram í gær. Þegar upp úr viðræðunum hafi slitnað, hafi Byko verið boðið að endurnýja tilboð sitt og það hafi ekkert haft með Ásdísi Höllu að gera.

Fréttastofan hefur ekki náð tali af Ásdísi Höllu Bragadóttur forstjóra Byko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×