Erlent

Danir dæmdir fyrir mannréttindabrot

Danskur herforingi og fjórir danskir hermenn voru í dag fundnir sekir um að hafa brotið mannréttindi við yfirheyrslur á föngum í Írak í fyrra. Refsingu yfir þeim var hins vegar frestað, þar sem þeir höfðu ekki fengið nægilega skýr fyrirmæli um hvað væri leyfilegt við yfirheyrslur.

Annemette Hommel, höfuðsmaður í danska hernum, sem hér sést ganga að héraðsdómi Kaupmannahafnar í dag, var fundin sek um að hafa, ásamt fjórum undirmönnum sínum, gerst sek um að niðurlægja fangana með ýmsu móti. Bæði hefðu þau notað um þá niðrandi orð og látið þá krjúpa í óþægilegum stellingum í langan tíma. Hins vegar voru þau sýknuð af nokkrum öðrum ákærum, meðal annars að hafa neitað föngum um vatn.

"Ég er mjög glöð og hamingjusöm með þá hluta málsins þar sem ég var sýknuð," sagði Hommel eftir að dómurinn var fallinn. "Mér finnst dómstóllinn hafa beitt óþarflega mikilli hörku í hinum þáttum málsins. Það get ég ekki sætt mig við. Ég mun óska eftir þvví við Hæstarétt að hann taki málið upp og við lögmaður minn höfum ákveðið að mæla með því við Hæstarétt að ég verði sýknuð. Það er ekkert ákveðið enn sem komið er."

Atburðirnir áttu sér stað í danskri herstöð í borginni Basra í suðurhluta Íraks í mars á síðasta ári. Þar sem Hommel hafði ekki fengið skýr fyrirmæli um hvað mætti og hvað mætti ekki við yfirheyrslurnar, var ekki kveðin upp refsing yfir sakborningunum. sagði í dómnum að Hommel hefði ítrekað beðið um að fá slík fyrirmæli, en án árangurs.

Málið hefur vakið mikla athygli í Danmörku, enda er um að ræða fyrsta dómsmálið sem tengist dönskum hermönnum í Írak, síðan ráðist var inn í landið í mars árið 2003.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×