Erlent

Óvissa þegar dómur fellur

Réttarhöldunum yfir Saddam Hussein var ætlað að sætta sundraða þjóð. Tilgangurinn var að afhjúpa glæpi einræðisherrans í löglegum réttarhöldum til þess að Írakar gætu horfst í augu við fortíð sína. Í framhaldi af því gætu þeir haldið áfram uppbyggingarstarfi sínu, og verið samtaka.

Núna, þegar dómur er í vændum níu mánuðum eftir að fyrstu réttarhöldin hófust, bendir þó fátt til þess að þau göfugu áform rætist. Þvert á móti spá margir því að dómurinn, ekki síst ef niðurstaðan verður dauðadómur, geti leyst úr læðingi enn eina ofbeldishrinuna í landinu, þar sem lítið lát hefur verið á átökum allt frá því Bandaríkjaher réðst inn í landið ásamt bandamönnum sínum í mars árið 2003.

„Ofbeldi og manndráp munu aukast og Saddam verður að þjóðardýrlingi í augum súnnía," sagði Ibrahim Khalid, rúmlega fimmtugur súnní-arabi frá Bagdad, þar sem margir styðja enn einræðisherrann, sem steypt var af stóli.

Á hinn bóginn ættu margir sjía-múslimar afar erfitt með að sjá Saddam sleppa við dauðadóm. Í síðasta mánuði sagðist forsætisráðherra landsins, Nouri al-Maliki, sem sjálfur er sjía-múslimi, reikna fastlega með því að "þessi glæpsamlegi harðstjóri verði tekinn af lífi" og fylgismenn hans missi þá móðinn og láti af uppreisn sinni.

Fyrstu réttarhöldin yfir Saddam Hussein og sjö félögum hans hófust 19. október á síðasta ári. Þau réttarhöld snúast um fjöldamorð á um það bil 150 sjía-múslimum í þorpinu Dujail, sem framin voru skömmu eftir að Saddam Hussein var sýnt banatilræði árið 1982.

Önnur réttarhöld yfir Saddam hófust í ágúst síðastliðnum, en þar er hann sakaður um þjóðarmorð á kúrdum. Búist er við að fleiri réttarhöld séu í vændum, en á hinn bóginn er óljóst hvort þeim verður haldið áfram ef Saddam hlýtur dauðadóm á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×