Erlent

Afsögn annars ráðherra

Cecilia Stegö Chilo
Cecilia Stegö Chilo

Sænski menningarmálaráðherrann Cecilia Stegö Chilo sagði af sér í gær, í kjölfar þess að hafa viðurkennt að hafa ekki greitt afnotagjöld ríkissjónvarpsins í sextán ár og að hafa borgað svart fyrir hreingerningar heima hjá sér. Hún varð þar með annar ráðherrann sem hrekst úr embætti frá því samsteypustjórn borgaralegu flokkanna tók við völdum fyrir tíu dögum.

Viðskiptaráðherrann Maria Borelius sagði af sér á laugardag vegna hliðstæðra ásakana.

Stjórnmálaskýrendur segja það aldrei hafa gerst áður í sænskri stjórnmálasögu að tveir ráðherrar hrykkju úr skaftinu svo fljótt eftir valdatöku ríkisstjórnar. En enginn vænti þess þó að hneykslismál þau sem leiddu til afsagnanna yrðu banabiti ríkisstjórnarinnar í heild.

„Ég er að sjálfsögðu mjög döpur yfir því að þurfa að fara úr hinu verðandi menningarmálaráðuneyti eftir svo stuttan tíma,“ sagði Stegö Chilo í skriflegri yfirlýsingu í gær. Á undan var gengin óvægin gagnrýni á ráðherrann í fjölmiðlum fyrir að hafa komið sér undan því að greiða afnotagjöldin af ríkissjónvarpinu í 16 ár, en þau eru um 1500 sænskar krónur á ári eða um 14.000 íslenskar. Sem menningarráðherra var Stegö Chilo yfirmaður ríkisljósvakamiðlanna.

Sænskir borgarar greiða hæstu skatta í heimi og hafa því lítið umburðarlyndi gagnvart ráðamönnum sem ekki sýna fyrirmyndarhegðun sem skattgreiðendur.

Eftir afsagnirnar tvær þykir hafa hitnað undir Tobias Billström, ráðherra innflytjendamála, en hann hefur einnig viðurkennt að hafa ekki greitt afnotagjöldin í mörg ár.

Forsætisráðherrann Fredrik Reinfeldt sagði á laugardag að afsögn Borelius myndi ekki hafa nein teljandi áhrif á ríkisstjórnina. Hann lét ekki hafa neitt eftir sér í gær um afsögn Stegö Chilo.

Bæði Borelius og Stegö Chilo sátu í stjórninni fyrir hönd Hægriflokksins, sem Reinfeldt fer fyrir. Það gerir Billström einnig. Helmingur ráðherranna eru úr Hægriflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×