Erlent

Rangar niðurstöður angra konur

Brjóstakrabbamein Ný dönsk rannsókn sýnir að konur þjást mun meir en áður hefur verið talið vegna falskra niðurstaðna röntgenmynda í brjóstakrabbameinsleit.Fréttablaðið
Brjóstakrabbamein Ný dönsk rannsókn sýnir að konur þjást mun meir en áður hefur verið talið vegna falskra niðurstaðna röntgenmynda í brjóstakrabbameinsleit.Fréttablaðið

Konur þjást mun meir en áður hefur verið talið, þegar þær eru kallaðar aftur í brjóstakrabbameinsskoðun vegna gruns um að æxli hafi fundist sem síðan reynist ekki á rökum reistur. Þetta kemur fram í nýrri danskri rannsókn sem fjallað er um í danska blaðinu Politiken.

Þó að falskar niðurstöður röntgenmynda séu eitthvað sem læknar hafa lært að lifa með sem einn þátt vinnu sinnar, upplifa konurnar þessar fölsku niðurstöður á allt annan hátt, að sögn John Brodersen, læknisins sem stóð fyrir rannsókninni hjá Kaupmannahafnarháskóla.

Mikill meirihluti kvennanna lýstu tilfinningum eins og reiði, kvíða og kjarkleysi, bæði áður en þær fóru í frekari rannsókn, sem og eftir að þær komust að því að enginn fótur var fyrir gruninum.

„Í mínum augum er þetta vandamál miklu stærra en læknarnir og yfirvöldin hafa gert sér grein fyrir," sagði Brodersen, og bætti við að þessar fölsku niðurstöður hafa áhrif á svefn kvennanna, kynlíf, framlag þeirra á vinnustað og skap. Að sögn Brodersen vara áhrifin í allt að sex mánuði eftir að endanleg niðurstaða er fengin úr seinni rannsókninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×