Erlent

Mótmæla velferðarniðurskurði

Danir mótmæla Gríðarlegur fjöldi Dana mótmælti aðgerðum ríkisstjórnarinnar í gær.
Danir mótmæla Gríðarlegur fjöldi Dana mótmælti aðgerðum ríkisstjórnarinnar í gær. MYND/AP

Nærri fimmtíu þúsund Danir mótmæltu niðurskurði í velferðarkerfinu víða um Danmörku í gær. Óánægðir foreldrar, starfsfólk opinberra stofnana og nemendur söfnuðust saman á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn, sem og á aðaltorgum margra annarra borga Danmerkur, að því er fram kom á fréttavef Politiken.

Fólkið var að mótmæla fyrirhuguðum niðurskurði sveitarfélaganna, sem bitnar harðast á börnum og gamalmennum.

Leikskólakennarar í Árósum hafa verið í verkfalli vegna niðurskurðarins í hátt í þrjár vikur og í dag var flestum grunnskólum Árósa lokað vegna mótmælanna. Í Kaupmannahöfn var 415 af 540 dagheimilum lokað.

Niðurskurðurinn var ákveðinn eftir að ljóst varð að sveitarfélögin mun skorta 932 milljónir danskra króna á næsta ári, sem samsvarar tæpum ellefu milljörðum íslenskra króna.

Meðal annars krefjast Danir þess að ríkisstjórnin noti eitthvað af þeim áætluðu 80 milljörðum danskra króna, sem talið er að verði afgangs í ríkiskassanum á næsta ári, til að leiðrétta stöðuna.Sveitarfélögum Danmerkur fækkar úr 273 í 98 um áramótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×