Erlent

Fjórum rússneskum hermönnum sleppt

Staðið vörð Georgískir lögreglumenn hafa fylgst náið með höfuðstöðvum rússneska hersins í Tiblisi síðan í síðustu viku.
Staðið vörð Georgískir lögreglumenn hafa fylgst náið með höfuðstöðvum rússneska hersins í Tiblisi síðan í síðustu viku. MYND/AP

Georgía, AP Georgíumenn reyndu í gær að draga úr vaxandi spennu milli þeirra og Rússa, með því að afhenda Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu fjóra rússneska hermenn sem setið hafa í haldi í Georgíu síðan í síðustu viku, sakaðir um njósnir.

Mennirnir héldu til Moskvu í gær með rússneskri flugvél ásamt tveimur rússneskum embættismönnum, sem höfðu verið í felum í höfuðstöðvum rússneska hersins. Georgíustjórn hafði einnig leitað þeirra vegna gruns um njósnir.

Rússnesk stjórnvöld segja þó að áfram verði allar samgöngu- og póstleiðir milli Rússlands og Georgíu lokaðar, sem er afar bagalegt fyrir smáríkið Georgíu, sem er afar háð aðföngum frá Rússlandi. Líklegt þykir að enn muni harðna á spennunni í þessum verstu deilum Rússa og Georgíumanna árum saman.

Tengslin milli landanna hafa löngum verið stirð, en þessi deila hófst þegar Rússarnir voru handteknir í Tyflis á miðvikudag. Rússar brugðust ókvæða við og kölluðu sendiherra sinn og landsmenn heim. Vladimir Pútín Rússlandsforseti fór harkalegum orðum um Georgíustjórn á sunnudag, en sagðist þó ætla að standa við fyrri samninga um að draga rússneska herinn frá Georgíu árið 2008.

Rússar eru ekki sammála stefnu stjórnar Georgíu, sem hefur undanfarin ár vingast við Vesturlönd og vonast eftir inngöngu í Atlantshafsbandalagið. Mikhail Saakashvili, forseti Georgíu, hefur einnig lofað að færa landið undan áhrifum Rússlands og sameina héruðin Abkasíu og Suður-Ossetíu aftur Georgíu, en þessi tvö héruð hafa í reynd notið sjálfstæðis þótt formlega hafi það ekki verið viðurkennt. smk@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×