Erlent

Hryðjuverkaógn lamar flug í London

Öngþveiti á HEathrow Vegna tafa við öryggisleit hafa sumar flugvélar farið á loft án meirihluta farþega.
Öngþveiti á HEathrow Vegna tafa við öryggisleit hafa sumar flugvélar farið á loft án meirihluta farþega.

Þriðjungi áætlunarflugs frá Heathrow flugvelli í London var aflýst á sunnudag vegna öngþveitis við öryggisleit.

Hertar öryggiskröfur sem komið var á á fimmtudag, þegar upp komst um áætlun hryðjuverkamanna um að sprengja allt að tíu farþegaþotur í loft upp, eru enn í gildi í Bretlandi, en öryggisreglum á flugvöllum í Bandaríkjunum var breytt lítillega á sunnudag. Farþegar í Bandaríkjunum mega nú hafa með sér fjórar únsur af lausasölulyfi í vökvaformi en verða að fara úr skónum í öryggisleit og láta skanna þá.

John Reid innanríkisráðherra Bretlands hefur viðurkennt að nauðsynlegt sé að slaka á öryggiskröfum, en fjöldi fólks hefur misst af flugi sínu vegna tafa við leit. Núverandi fyrirkomulag er tímabundið, sagði Reid í gær.

British Airways þurfti að aflýsa þrjátíu prósent áætlunarflugs frá Heathrow á sunnudag, þar af um 100 flugum til Evrópu. Einnig var öllu innanlandsflugi fyrirtækisins frá Gatwick aflýst í gær. Rekstraraðili Heathrow hefur verið gagnrýndur fyrir að ráða ekki við nýjar kröfur. Forráðamenn Ryanair óskuðu eftir því við bresk yfirvöld að lögreglu og herlið aðstoðaði við leit á flugvöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×