Innlent

Afli dregst mikið saman á milli ára

Björg í bú Fiskafli á Íslandsmiðum dregst saman á milli ára.
Björg í bú Fiskafli á Íslandsmiðum dregst saman á milli ára. MYND/SvÞ

Heildarafli yfirstandandi fiskveiðiárs var kominn í 1.110.764 lestir 30. júní síðastliðinn en á sama tíma í fyrra var aflinn 1.590.193 lestir. Aflinn er því tæplega 480 þúsund lestum minni, samanborið við síðasta fiskveiðiár. Minni afli uppsjávartegunda, og þá einkum loðnu, skýrir að mestu þennan samdrátt. Heildarmagn botnfiskafla er svipað á milli ára en meira hefur veiðst af úthafskarfa en í fyrra en minna af þorski og ýsu.

Heildaraflinn í júní var 133.615 lestir samkvæmt bráðabirgða­tölum Fiskistofu. Það er um það bil 22 þúsund lesta minni afli en í júní í fyrra þegar aflinn var 155.385 lestir. Samdrátturinn á milli ára skýrist af minni síldar- og kolmunnaafla en afli á norsk-íslensku síldinni dróst saman um sautján þúsund tonn. Botnfisk­aflinn í júní var 39.267 lestir, 9.844 lestum minni en í júní í fyrra. Þar munar mikið um 2.628 tonna samdrátt í þorskafla. Ýsu- og ufsaafli jókst hinsvegar nokkuð en mest aukning var í veiði á úthafskarfa sem fór úr 3.544 lestum í júnímánuði í fyrra í 8.787 lestir í ár.

Hagstofa Íslands greinir frá að aflaverðmæti síðasta árs var svipað og árið 2004 eða tæpir 68 milljarðar króna. Stærstum hluta fiskaflans var landað og úr honum unnið á Austurlandi en úr verðmætasta aflanum var helst unnið á höfuðborgarsvæðinu. Þorskur var helst unninn í salt árið 2005 og ýsa fryst að mestu leyti í landi. Síld er fryst í síauknum mæli, annað hvort á landi eða á sjó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×