Sport

Phoenix - Denver í beinni á Sýn

Steve Nash og félagar sjá um að halda uppi fjörinu á Sýn klukkan tvö í nótt
Steve Nash og félagar sjá um að halda uppi fjörinu á Sýn klukkan tvö í nótt NordicPhotos/GettyImages

Það verður mikið um dýrðir fyrir áhugamenn um NBA körfuboltann í nótt, því Sýn verður með beina útsendingu frá leik Phoenix Suns og Denver Nuggets klukkan tvö eftir miðnætti, en þar að auki verður leikur Golden State Warriors og Charlotte Bobcats sýndur í beinni á NBA TV klukkan 03:30.

Lið Phoenix Suns hefur óðum verið að slípast saman eftir erfiða byrjun, enda urðu meiðsli Amare Stoudemire liðinu gríðarleg blóðtaka. Það þýðir þó ekki að liðið spili ekki frábæran körfubolta og Steve Nash stjórnar hröðum og skemmtilegum leik liðsins eins og herforingi.

Phoenix hefur unnið 8 leiki og tapað 5 það sem af er og Shawn Marion er þeirra stiga- og frákastahæstur með 19 stig og 12,5 fráköst að meðaltali í leik, en auk hans og Nash er fjölinn allur af skemmtilegum leikmönnum í liði Phoenix sem hafa tekið upp hanskann í fjarveru Stoudemire.

Denver liðið hefur einnig átt í vandræðum með meiðsli stóru mannanna, en hefur engu að síður náð að hrista það af sér og hefur unnið 8 leiki og tapað 8. Carmelo Anthony er þeirra stigahæstur með 19 stig að meðaltali í leik.

Þá má einnig búast við hröðum og skemmtilegum leik þar sem Golden State og Charlotte mætast, en það eru skemmtileg lið sem ekki sjást oft á skjánum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×