Erlent

Stjórnarskráin líklega samþykkt

Ánægja ríkir með kosningarnar í Írak í gær. Það þykir næsta víst að stjórnarskráin sem kosið var um hafi verið samþykkt, en þar með eru þó ekki allir erfiðleikar yfirstignir. Kosningarnar gengu ótrúlega friðsamlega fyrir sig að mati talsmanna Sameinuðu þjóðanna þó að einhverjar árásir hafi verið gerðar. Til að mynda voru fimm bandarískir hermenn drepnir í sprengjuárás á bifreið þeirra í Ramadi í vesturhluta landsins. Í morgun voru svo uppreisnar- og hryðjuverkamenn komnir á kreik á ný. Tvær sprengjur sprungu við græna svæðið í Bagdad, þar sem ríkisstjórnin hefur aðsetur sitt, en engan sakaði. Kosningaþátttaka var góð, nærri sextíu og fimm prósent, og allt bendir til þess að stjórnarskráin hafi verið samþykkt, þrátt fyrir andstöðu súnníta. Endanlegar niðurstöður liggja þó fyrst fyrir á morgun eða þriðjudag. En þar með er björninn þó ekki unninn. Laith Kubba, talsmaður ríkisstjórnar Íraks, sagði í dag að stjórnarinnar biði erfitt úrlausnarefni, hvort sem stjórnarskráin yrði samþykkt eður ei. „Við vitum að það ríkir mikill klofningur í landinu og ef hluti af hinni íröksku fjölskyldu er óánægður er erfitt að búa undir sama þaki,“ sagði Kubba. Þingkosningar verða í desember og eru stjórnmálaskýrendur ekki sammála um áhrif þeirra. Sumir telja kosningarnar geta leitt til frekari klofnings og deilna, en aðrir benda á að aukin kosningaþátttaka súnníta og breyttar kosningareglur sem eru þeim í hag ættu að leiða til þess að allir hópar ættu sér sterka fulltrúa á þingi þar sem hægt væri að útkljá deilumál með lýðræðislegum hætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×