Sport

Castillo kom fram hefndum

Mexíkóski boxarinn Jose Luis Castillo kom fram hefndum gegn Diego Corrales í nótt, þegar dómarinn stöðvaði annan bardaga þeirra í fjórðu lotu eftir að Castillo hafði lumbrað duglega á Corrales og slegið hann í gólfið. Bardaginn átti að vera önnur viðureign þeirra um WBC og WBO titilinn í léttvigt, en Castillo náði ekki að létta sig nægilega mikið fyrir bardagann og því var aðeins barist um peninga og stolt. Corrales fékk ljótan skurð á augað í annari lotu, Castillo vann þá þriðju og í fjórðu lotunni var það þungur vinstri krókur sem gerði út um bardagann, sem í eftir á að hyggja var eign Castillo. Þeir félagar samþykktu strax í hringnum að þriðji bardagi þeirra skyldi fara fram, en ekki hefur verið ákveðið í hvaða þyngdarflokki hann verður. Corrales reyndi ekki að afsaka sig eftir bardagann og viðurkenndi að andstæðingur hans hefði einfaldlega verið betri þann daginn. "Hann náði mér með góðum krók, það er allt og sumt. Ég hef engar afsakanir," sagði Corrales.
Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×