Erlent

Engin tímatafla um brottflutning

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur hafnað kröfum um að setja tímatöflu um brottflutning breskra hermanna frá Írak. Vaxandi mannfall í breskum hersveitum í Írak hefur vakið upp nýja mótmælaöldu í Bretlandi. Kröfur um að breskir hermenn verði kvaddir heim verða sífellt háværari. Breska blaðið The Observer segir að þegar sé búið að gera nákvæma áætlun um heimflutning hermannanna, en Blair vísar því á bug. Hann neitar því ekki beinlínis að til sé áætlun um heimflutninginn, en segir að engin tímamörk hefðu verið sett. Tímamörkin væru ekki önnur en þau að bresku hermennirnir komi heim þegar þeir hafi lokið sínu hlutverki. Blair segir að stjórnin í Írak sé að styrkjast, þótt enn ríki óöld í landinu. Sífellt sé verið að þjálfa fleiri hermenn og lögreglumenn og þegar Írakar væru sjálfir orðnir færir um að halda uppi lögum og reglu yrðu erlendar hersveitir fluttar á brott.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×