Innlent

Rekinn tollari fær ekki bætur

Hæstiréttur féllst ekki á 27 milljóna króna bótakröfu deildarstjóra tollgæslunnar á Selfossi sem vikið hafði verið frá störfum vegna gruns um aðild að tolla- og hegningarlagabrotum við tollafgreiðslu á bílum til landsins. Hann þarf í staðinn að reiða fram 400.000 krónur í málskostnað til ríkisins. Maðurinn var ákærður fyrir hluta af brotunum, en sýknaður í Héraðsdómi. Hann höfðaði þá mál á hendur ríkinu til greiðslu bóta og fékk samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur eina milljón króna, sem hann verður nú af með dómi Hæstaréttar. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari skilaði sératkvæði þar sem hann taldi grundvöll til bótagreiðslna, en taldi ekki ástæðu til að fjalla um upphæðir þar sem meirihluti dómsins hafði komist að annarri niðurstöðu. Hann taldi ekki hafa verið sýnt fram á með fullnægjandi hætti að lagaskilyrði hafi verið fyrir að víkja manninum að fullu úr embætti og ríkið hafi tekið áhættu með því að reka manninn áður en dómur féll í máli hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×