Innlent

Ræningjar gripnir á tíu mínútum

Tveir menn vopnaðir hnífum rændu Laugarnesapótek við Kirkjuteig í Reykjavík eftir hádegið í gær. Mennirnir, sem huldu andlit sitt með hettum, ruddust inn í apótekið og ógnuðu starfsfólki, án þess þó að meiða nokkurn og höfðu á brott með sér bæði bæði peninga og lyf. Lögregla handtók mennina við ránsstaðinn og í framhaldinu þann þriðja sem reyndi að komast undan á bíl. "Tíu mínútur liðu frá því að við fengum tilkynningu um ránið og þar til búið var að handtaka alla mennina," segir Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, en tilkynning barst um ránið eina mínútu fyrir tvö. "Þeir voru með einhver lyf og svo peninga sem þeir reyndar misstu frá sér að mestu á hlaupunum," segir Hörður, en að sögn vitna naut lögregla aðstoðar iðnaðarmanna sem tafið höfðu för ræningjanna. Mennirnir, einn á fertugsaldri og tveir nálægt þrítugu, verða yfirheyrðir í kvöld og á morgun. Hörður segir þá alla hafa komist í kast við lögin áður en í mismiklum mæli þó. Sá yngsti í hópnum, 27 ára, var viðriðinn sams konar rán í apóteki í júní og bíður dóms vegna þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×