Sport

36 reglubreytingar í handboltanum

Handboltaáhugamenn mega búast við að íþróttin breytist örlítið ásýndum þegar nýtt tímabil hefst nú um helgina. Alls er búið að boða 39 reglubreytingar en þær koma frá Alþjóðahandknattleikssambandinu og miða að því að bæta íþróttina á heimsvísu. Breytingarnar eru of margar til að telja þær upp hér, en þær helstu eru að nú verður til að mynda leiktíminn ekki stöðvaður í vítaköstum, nema við sérstakar aðstæður. Þá má ekki vera í nema þriggja metra fjarlægð frá þeim sem tekur aukakast utan af velli þegar venjulegur leiktími er liðinn, hvort sem um samherja eða andstæðing er að ræða. Við það tilefni má ekki gera neinar skiptingar, nema að liðið sem á aukakastið má skipta inn einum leikmanni. Liðið sem þarf að verjast aukakastinu má því ekki lengur skipta hávöxnustu leikmönnum sínum inn á til að stilla upp í varnarvegg. Ein athyglisverðasta reglubreytingin er sú að þegar sóknarmaður er rændur upplögðu marktækifæri á lokamínútum leiksins og leikurinn í járnum skal vísa þeim leikmanni sem brýtur á sóknarmanninum umsvifalaust af velli og dómarinn skilar í kjölfarið sérstakri skýrslu til aganefndar sem er skylt að dæma leikmanninn í að minnsta kosti tveggja leikja bann. Skiptir engu þó að um litla snertingu sé að ræða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×