Innlent

Ástandið slæmt eftir Menningarnótt

Piltur á tvítugsaldri liggur alvarlega slasaður á gjörgæsludeild Landspítala - háskólasjúkrahúss eftir að hafa verið stunginn með hnífi í bakið í nótt. Árásarmaðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Yfirlögregluþjónn í Reykjavík segir ástandið í miðborginni hafa verið mjög slæmt eftir að skipulagðri dagskrá Menningarnætur lauk. Pilturinn var stunginn tvisvar sinnum í bakið og við það féll annað lungað í honum saman. Hann var fluttur á slysadeild og eftir að hafa gengist undir aðgerð fór hann á gjörgæsludeild. Árásarmaðurinn sem grunaður er um verknaðinn fannst stuttu síðar með aðstoð eftirlitsmyndavéla og vitna. Hann var handtekinn og hefur verið í yfirheyrslum í dag. Eftir flugeldasýninguna í gærkvöldi safnaðist gríðarlega mikill mannfjöldi saman á bílastæði við Hafnarstræti og þar var drengurinn stunginn í bakið tvisvar. Lögreglumenn sem fréttastofa Stöðvar 2 hefur rætt við í dag og voru á vakt segja ástandið hafa verið svakalegt. Mikið var um slagsmál og ölvun var áberandi. Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn segir menninguna yfir daginn hafa blómstrað og að allt hafi gengið vel fyrir sig. Eftir flugeldasýninguna hafi hins vegar ástandið farið hríðversnandi. Upp úr miðnætti hafi ákveðinn hópur, þó mikill minnihluti fólks á svæðinu, farið að slást. Það hafi verið einhver spenna í loftinu. Skólahald hefst víðast hvar eftir helgina og Geir Jón segir að það hafi haft áhrif - sú helgi sé alltaf mjög stór í miðborginni. Lögreglumenn hafi sagt við hann að þeir hafi upplifað svipaða hluti og verið hafi um nætur fyrir nokkrum árum. Þá hafi ástandið oft verið slæmt helgi eftir helgi. Lögreglumenn hafi því ekki verið ókunnir ástandinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×