Innlent

Meint brot samþykkt í úttekt

Enska lögfræðifyrirtækið Capcon-Argen Limited sem fór yfir ákærurnar 40 í Baugsmálinu að beiðni Baugs, segir ekkert óeðlilegt við hegðun Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og hófst kynning á skýrslunni á Hótel Nordica klukkan  níu í morgun. Enska lögfræðifyrirtækið Capcon-Argen Limited hefur rannsakað ákæruatriðin fjörutíu á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fimm öðrum tengdum fyrirtækinu. Þeim var veittur fullur aðgangur að málsskjölum, sakborningum, verjendum sem og samstarfsmönnum félagsins. Ákæruatriðin voru skýrð hvert fyrir sig en alls er ákært vegna tæplega þriggja milljarða króna fyrir fjárdrátt og umboðssvik, vegna ólögmætra lánveitinga upp að 1,3 milljarða króna. Og fyrir rangfærslur í bókhaldi sem hljóða upp á 1,4 milljarða. Flestar ákærurnar eru vegna mála sem áttu sér stað þegar Baugur var almenningshlutafélag en þrátt fyrir að Jón Ásgeir og fjölskylda hans ættu meirihluta félagsins var ekki leyfilegt að fara með eignir félagsins sem sínar eigin en það var gert samkvæmt ákærunum. Fyrirtækið sem framkvæmdi rannsóknina segir ekkert óeðlilegt við það að forstjóri fyrirtækisins sem ferðist mikið noti greiðslukort til persónulegra nota á ferðalögum sínum. Enginn í stjórninni hefði sett út á að svo væri gert og þó að ekkert skriflegt væri til um það væri það ekki óeðlilegt. Þá kom fram að öll upphæðin hefði verið borguð til baka á reikning Baugs og það sama gilti um önnur ákæruatriði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×