Innlent

Kona myrt á varnarliðssvæði

Tvítug varnarliðskona var myrt á varnarsvæði bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli á miðnætti í nótt. Varnarliðsmaður er í haldi herlögreglunnar grunaður um verknaðinn. Íslensk kona er í haldi lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli. Hún er talin hafa verið vitni að verknaðinum og getað gefið mikilvægar upplýsingar. Lögreglan á Keflavíkurflugvelli rannsakar málið ásamt rannsóknardeild sjóhersins. Von er á bandarískum rannsóknarmönnum frá Bretlandi til að aðstoða við að upplýsa málið. Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, segir að á þessu stigi málsins sé ekkert hægt að segja annað en að unga konan hafi fundist látin og íslensk og bandarísk yfirvöld rannsaki málið. Aðspurður hvort einhverjir séu í haldi vegna málsins segir Jóhann að Bandaríkjamaður hafi verið handtekinn, en hann sé talinn tengjast láti konunnar. Þá sé íslensk kona í haldi en hún sé talin hafa verið vitni. Spurður hvort hann viti hvaða vopn hafi verið notað við verknaðinn segir Jóhann ekkert geta sagt annað um málið að svo stöddu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×