Innlent

Tíu lögregluþjónar kallaðir til

Fjöldi lögregluþjóna kom að heimili Ólafs Páls Sigurðssonar, eins mótmælenda virkjunar við Kárahnjúka, í vesturbæ Reykjavíkur í gærmorgun. Klippti lögregla númeraplötur af bifreið Ólafs Páls sem þar stóð í innkeyrslunni. Frestur til þess að færa bifreiðina til skoðunar var runninn út og kom lögreglumaður að sem hófst handa við að klippa númeraplötur af bílnum að sögn Ólafs Páls. Hann segir í kjölfarið fleiri lögregluþjóna hafa drifið að, en alls telur hann um tíu lögregluþjóna á fjórum bifreiðum hafa komið að. Þetta staðfestir nágranni. Aðalvarðstjóri lögreglunnar í Reykjavík segir æsing hafa myndast á staðnum og fólk verið ósátt við aðgerðir lögreglu. Því hafi verið óskað eftir aðstoð fleiri lögregluþjóna. Ekki fékkst staðfest hjá Lögreglunni í Reykjavík hversu margir lögregluþjónar fóru á staðinn. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, neitar því að fylgst sé sérstaklega með mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar, sem nú eru flestir komnir til Reykjavíkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×