Innlent

Mótmælendur dreifa sér um landið

Mótmælendur við Kárahnjúka eru að dreifa sér um landið, hugsanlega til þess að losna undan eftirliti lögreglumanna sem elta þá hvert fótmál. Mótmælendurnir vilja ekkert segja um fyrirætlanir sínar og saka lögregluna um ofsóknir. Vararíkislögreglustjóri vísar því á bug. Sumir mótmælendanna við Kárahnjúka eru nú komnir til Reykjavíkur, aðrir eru við Mývatn og enn aðrir einhvers staðar annars staðar. Lögreglan hefur haft á þeim mjög góðar gætur fyrir austan og fylgt þeim hvert fótmál. Spurningin er hvort mótmælendurnir séu að reyna að hrista lögregluna af sér og laumist svo aftur að Kárahnjúkum til þess að gera nýja atlögu. Mótmælendur sem fréttastofa Stöðvar 2 talaði við í dag vildu ekkert um það segja sem er kannski ekki er óeðlilegt. Mótmælendurnir eru ekki sáttir við hvernig lögreglan fylgist með þeim og telja að verið sé að brjóta á réttindum þeirra. Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri sagði í samtali við fréttastofuna að þeir færu í einu og öllu eftir lögreglulögunum og þar væru skýrar heimildir um hvernig og við hvaða aðstæður megi fylgjast með fólki. Þórir sagði að engar athugasemdir hafi verið gerðar við að útlendingar kæmu til landsins til þess að mótmæla. Afstaða lögreglunnar hafi hins vegar breyst þegar þeir fóru inn á bannsvæði, unnu skemmdarverk og ollu vinnutöfum. Talsmaður mótmælenda hafi sagt að því yrði haldið áfram og því beri lögreglunni að hafa eftirlit með fólkinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×