Innlent

Drykkjulæti á fiskihátíð

Til stimpinga kom á Dalvík snemma í gærmorgun milli nokkurra manna og enduðu þær með því að einn nefbrotnaði og var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Málsatvik eru talin ljós og að sögn lögreglu verður kært fyrir líkamsárás. Tveir gistu fangageymslur lögreglunnar vegna málsins. Alls voru fjórir skikkaðir til að gista fangageymslur vegna slagsmála og ölvunarláta á Dalvík í fyrrinótt. Þrír komust fyrir í fangageymslunum á Dalvík en flytja þurfti einn til Akureyrar vegna plássleysis. Margt var um manninn á Dalvík í gær á Fiskideginum mikla en að sögn lögreglu fór allt vel fram. Tjaldað var á hverjum einasta túnbletti í og við bæinn og alls voru tiltækir 110 þúsund matarskammtar úr um 11 tonnum af fiski. Að sögn Júlíusar Júlíussonar, framkvæmdastjóra fiskidagsins, voru áreiðanlega fleiri á hátíðinni nú en í fyrra, en þá komu 27 þúsund manns. Lögreglan á Dalvík var með aukinn viðbúnað í gærkvöld og fékk aðstoð lögregluembættanna bæði í Ólafsfirði og á Akureyri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×