Innlent

Skorinn með glerflösku

Bandarískur hermaður hlaut skurði í hópslagsmálum utan við skemmtistaðinn Traffic við Hafnargötu í Reykjanesbæ á þriðja tímanum í fyrrinótt. Hermaðurinn fór svo sjálfur ásamt félögum sínum með leigubíl á hersjúkrahúsið á herstöðinni þar sem hann gekkst undir aðgerð. Hann er ekki talinn vera í lífshættu. Fjórir Íslendingar og einn erlendur ríkisborgari voru í kjölfarið handteknir og vistaðir í fangageymslum lögreglunnar í Keflavík í fyrrinótt. Þeir voru svo yfirheyrðir í gær af rannsóknalögreglunni í Keflavík og höfðu tveir verið látnir lausir í gær þegar blaðið fór í prentun. Til slagsmála hafði komið milli tveggja hópa, annars vegar sex varnarliðsmanna og hins vegar þeirra fimm sem handteknir voru. Lögregla telur líklegt að hermanninum hafi verið veittir áverkarnir með brotinni glerflösku. Talsvert blæddi úr honum á götuna og var Hafnargötunni því lokað um tíma í gærnótt á meðan lögregla kannaði vettvang. Margt fólk var á ferli í miðbæ Keflavíkur þegar atvikið átti sér stað. Skurðirnir sem maðurinn hlaut voru nokkrir, misalvarlegir og djúpir. Í nóvember í fyrra lést danskur hermaður í kjölfar hnefahöggs sem honum var veitt í deilum sem upp komu á skemmtistaðnum. Þá er tæpt ár síðan kærð var líkamsárás sem framin var á staðnum en þá braut ungur Keflvíkingur glas í andliti manns með þeim afleiðingum að hann hlaut alvarlegan skurð á gagnauga. Þá eru enn ótalin nokkur önnur líkamsárásarmál sem upp hafa komið vegna ryskinga inni á staðnum á því rétt rúma ári sem hann hefur verið starfræktur í núverandi mynd. Lögregla leitar enn fólks sem getur gefið upplýsingar um atburði næturinnar og bendir þeim öllum á sem eitthvað vita að hafa samband í síma 420 2400.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×