Innlent

Íhuga að kæra skemmdarverk

Lögreglan á Egilsstöðum rannsakar skemmdarverk sem unnin voru á háspennustreng sem verið er að leggja í Hallsteinsdal. Steinar Frigðeirsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá RARIK, segir að einn leiðari í háspennustrengnum hafi verið sagaður í sundur og annar særður. "Hópur mótmælendanna í Kárahnjúkum fékk inni á Vaði í Skriðdal, þaðan sem háspennustrengurinn liggur. Það er mjög líklegt að þetta sé þeirra verk. Við erum að velta því fyrir okkur hvort við kærum, því þetta er tjón upp á nokkrar milljónir," segir Steinar. Hann telur að skorið hafi verið á strenginn um verslunarmannahelgina, þá var ekki búið að grafa hann í jörð og einungis búið að sanda yfir hann. Strengurinn er ætlaður fyrir byggðina í Reyðarfjörð en ekkert sérstaklega fyrir álverið, segir Steinar. "Ég frétti af þessum rafstreng fyrir tíu mínútum síðan. Við höfum engan áhuga á einhverjum byggðarlínum og rafmagn sveitanna á þessu svæði. Við stundum ekki skemmdarverk, það eru hins vegar Alcoa og Impregilo sem gera skemmdarverk," sagði Ólafur Páll Sigurðsson, talsmaður mótmælenda á virkjanasvæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×