Innlent

Kannar grundvöll fyrir brottvísun

Sýslumaður á Eskifirði ætlar að kanna hvort Útlendingastofnun telur grundvöll til þess að vísa mótmælendunum, sem stöðvuðu vinnu við álversframkvæmdir í Reyðarfirði í gær, úr landi. Lögreglan á Eskifirði hélt þrettán mótmælendum í yfirheyrslum fram yfir miðnætti en að því búnu var fólkinu sleppt og hélt það til tjaldbúðanna að Vaði í Skriðdal. Vinna á svæðinu stöðvaðist í nokkrar klukkustundir eftir að mótmælin hófust í gærmorgun. Í tilkynningu frá aðstandendum mótmælanna segir að aðgerðin sé ein af mörgum sem ráðist verði í gegn Alcoa og öðrum fyrirtækjum á sama sviði á Íslandi og víðar um heim. Að sögn Inger L. Jónsdóttur sýslumanns voru tíu Bretar í hópnum, einn Pólverji, einn Spánverji og einn Íslendingur. Þá var ein stúlka undir lögaldri og hefur félagsmálayfirvöldum verið falið að fara með málefni hennar. Nú er verið að skoða frekara framhald málsins en engin kæra hefur borist frá Alcoa eða öðrum vegna málsins. Það liggur ljóst fyrir að fólkið fór í óleyfi inn á afgirt bannsvæði og truflaði leyfilega starfssemi þar. Eins og greint hefur verið frá kannaði sýlsumaður á Seyðisfirði möguleika á að vísa mótmælendum úr landi eftir aðgerðir þeirra á virkjunarsvæðinu en Útlendingastofnun taldi ekki tilefni til þess. Atvikið núna er með nokkuð öðrum hætti því nú liggur nákvæmlega fyrir hvaða einstaklingar stóðu í hverju en í fyrra atvikinu tvístraðist hópurinn og öll málsatvik voru óljósari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×