Innlent

Tiltekin manneskja grunuð um hótun

Ákveðin manneskja liggur undir grun um sprengjuhótunina í Leifsstöð í nótt og er hennar nú leitað. Fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra barst tilkynningin í nótt og var allt viðeigandi lið kallað út til sprengjuleitar um klukkan hálffjögur. Þetta var svonefnd óljos tilkynning, en svo nefnist það þegar grunur leikur á að um gabb sé að ræða þannig að ekki var gripið til þess að rýma flugstöðina heldur leitað skipulega á vissum svæðum og reynt að vekja ekki ótta fyrstu gesta morgunsins. Leit lauk á sjötta tímanum án þess að nokkuð fyndist en þá höfðu myndast einhverjar biðraðir við innritunarborðin vegna leitarinnar. Að sögn Tinnu Víðisdóttur, staðgengils sýslumanns á Keflavíkurflugvelli, er málið þrátt fyrir það litið mjög alvarlegum augum, ekki síst í ljósi ástandsins í heiminum um þessar mundir, og verður allt gert til að hafa upp á þeim sem kom þessu af stað og hann látinn sæta refsingu, en þung viðurlög eru við sprengihótunum. Að öðru leyti vildi hún ekki fjölyrða um gang rannsóknarinnar á þessu stigi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×