Innlent

Dregur úr innbrotum á Nesinu

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni í Reykjavík hefur dregið verulega úr innbrotum á Seltjarnarnesi undanfarið, hvort sem litið er til fyrri ára eða hverfa í Reykjavík. Við vinnslu skýrslu um öryggismál á Seltjarnarnesi sem starfshópur sem skipaður var af bæjarstjórn skilaði af sér í vor var lögð áhersla á auknar forvarnir, meðal annars með samstarfi við lögreglu og aðra slíka aðila. Í tilkynningu frá yfirvöldum á Seltjarnarnesi segir að mikil áhersla hafi til dæmis verið lögð á að upplýsa þau brot sem framin voru í bænum síðastliðinn vetur og skiluðu þær rannsóknir nokkrum árangri. Sú umræða og vinna sem fram fór í tengslum við úttekt öryggishópsins varð til þess að þrýstingur myndaðist á rannsóknardeild lögreglunnar um að leggja meiri mannskap og aukinn þunga í að uppræta glæpagengi sem starfaði í vesturbæ Reykjavíkur. Samstarf Seltjarnarnesbæjar og lögreglunnar hefur þannig skilað árangri og er meðal annars búið að kortleggja ákveðna aðila sem taldir eru tengjast innbrotum í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins. Þegar skýrsla öryggishópsins kom út varð nokkur umræða um öryggismyndavélar sem forvarnartæki og sýndist sitt hverjum. Í könnun sem Gallup gerði í vetur var meðal annars könnuð afstaða Seltirninga til öryggismyndavéla. Þar kom fram að tæplega 66% þeirra sem afstöðu tóku eru hlynntir notkun eftirlitsmyndavéla til að sporna við afbrotum. Fjórðungur þeirra sem svara er andvígur öryggismyndavélum og er andstaðan mest hjá aldurshópnum 18-24 ára og einhleypum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×