Innlent

Mótmælir niðurstöðu geðrannsóknar

Tekið var fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær mál 34 ára gamals manns sem setið hefur í gæsluvarðhaldi í rúmar 10 vikur, eftir að hafa ráðist á lækni sem meðal annars sinnir rannsókn í sakamálum fyrir lögreglu og í barnsfaðernismálum. Þá er maðurinn kærður fyrir hótanir gegn lækninum og fjölskyldu hans, auk brota á fíkniefnalöggjöf. Maðurinn mótmælti framkvæmd og niðurstöðu geðrannsóknar þar sem Tómas Zoëga geðlæknir taldi manninn vera veikan á geði og enn hættulegan öðrum. Farið var fram á dómkvaðningu matsmanna til að fara yfir geðrannsóknina, en maðurinn kvaðst um leið áskilja sér rétt til að neita að tala við læknana sem kvaddir yrðu til verksins. Maðurinn viðurkennir að hafa ráðist á og hótað lækninum en Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður mannsins, segir þó því mótmælt að með árásinni hafi verið brotið gegn valdstjórninni, líkt og kveðið er á um í ákæru. Læknirinn hafi komið að einkamáli tengdu manninum, en ekki opinberu. "Ef lögreglumaður í fríi væri kýldur úti í sjoppu þá væri það ekki brot gegn valdstjórninni," sagði Sveinn Andri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×