Innlent

Efla þarf réttindagæslu

Meintur fjárdráttur konu sem stýrði sambýli fyrir fatlaða í Reykjavík er litinn mjög alvarlegum augum hjá svæðisskrifstofu fatlaðra, ekki síst þar sem um stjórnanda var að ræða. Þar mun nú hugað að endurskipulagi verkferla. Fjárhæðir vegna málsins liggja ekki fyrir, en talið er að konan hafi dregið sér vörur í allt að ellefu mánuði. Henni var vikið frá störfum í lok apríl. Halldór Gunnarsson formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, veit til þess að innan svæðisskrifstofu fatlaðara hafi fólk áhyggjur af því að betra eftirlit þurfi með rekstri sambýla. "Þetta mál er áminning um að huga þurfi betur að réttindum þessa hóps og efla réttindagæslu. Þó má segja að nú horfi aðeins til betri vegar, eftir að skipaður hefur verið trúnaðaðarmaður fatlaðra í fullu starfi í Reykjavík og á Reykjanesi. Það er vonandi byrjunin," segir hann og vísar til þess að í maí hóf störf Kristín Júlía Sigurjónsdóttir trúnaðarmaður. Þá hafði staðan verið ómönnuð í nokkra mánuði. Kristín segist þessa dagana ferðast um og heimsækja sambýli og heimili fyrir fatlaða, en þau skipta tugum. Hún áréttar að aðstandendur fatlaðra, sem og starfsfólk heimila geti snúið sér til hennar með mál og hún muni þá kanna þau. "En svæðisskrifstofan er virkilega að taka á þessu máli sem nú kom upp," sagði hún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×