Innlent

Málsgögnum var skilað í gær

Embætti Ríkislögreglustjóra lét í gær af hendi rannsóknargögn í Baugsmálinu svokallaða. Ákærur voru gefnar út á föstudag, en rannsókn lögreglu hefur staðið í tæp þrjú ár. Sex sæta ákæru, þar á meðal fyrrverandi og núverandi forstjóri Baugs, stjórnarmenn og tveir endurskoðendur. Ákærurnar hafa ekki verið gerðar opinberar og segja lögmenn ákærðu að af þeirra hendi verði það heldur ekki gert fyrr en þeir hafi fengið tóm til að fara yfir og skoða gögnin. Gögn málsins fylltu nokkra pappakassa, en gögnum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar forstjóra var skilað til lögmanns hans í Reykjavík. "Já, ég sé að verið er að bera þetta inn og þrír pappakassar komnir hér inn á gólf," sagði Gestur Jónsson lögmaður laust eftir klukkan ellefu í gærmorgun. Þórunn Guðmundsdóttir hæstaréttarlögmaður sem fer með mál endurskoðendanna sagðist í gær hafa fengið boð um að sækja mætti gögnin. "Það var búið að segja mér að aðstoð þyrfti við að bera þetta þannig að ég kom því ekki við í dag," sagði hún en kvaðst mundu sækja gögnin fyrir hádegi í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×