Innlent

Tvíkjálkabrotinn fær bætur

Ungir bræður voru fyrir helgi dæmdir í hálfsársfangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir að berja mann og sparka ítrekað í höfuð hans þar sem hann lá þannig að hann tvíkjálkabrotnaði og hlaut önnur meiðsl. Árásin átti sér stað á tjaldstæðinu við Þórunnarstræti á Akureyri, aðfararnótt 17. júní í fyrra. Fórnarlambið fékk hins vegar sjö mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa, fyrr sama kvöld, slegið yngri bróðurinn, þá aðeins 16 ára, tvisvar í andlitið, fyrst kinnhest og svo aftur fastar. Með því rauf hann skilorð dóms fyrir brot á fíkniefnalöggjöf. Dómar allra voru skilorðsbundnir í þrjú ár, en horft var til ungs aldurs bræðranna og þess að þeir höfðu ekki áður hlotið dóma. Árás bræðrana er í dómnum engu að síður sögð ófyrirleitin, sérstaklega fast lokaspark með tilhlaupi í andlit liggjandi ósjálfbjarga manns, með alvarlegum afleiðingum. Bræðurnir voru dæmdir til að greiða manninum tæpar 663.000 krónur í bætur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×