Innlent

Fundu eiturlyf, umbúðir og búnað

Lögregla fann þrjú kíló af hassi og 400 grömm af amfetamíni við húsleit á lögheimili manns í Reykjavík síðasta þriðjudag. Þá fundust fyrr um morguninn ætluð íblöndunarefni, umbúðir og búnaður sem lögregla ætlar að notaður hafi verið til að pakka fíkniefnum á dvalarstað mannsins. Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, staðfestir að farið hafi verið fram á gæsluvarðhald yfir manninum síðasta miðvikudag en það rennur út miðvikudaginn 13. júní. "Málið er í rannsókn og lítið hægt að segja um það meira að svo komnu máli," sagði Ásgeir þegar hann var spurður hvort fleiri væru viðriðnir málið. Í gæsluvarðahaldsbeiðninni kemur fram að fyrir liggi öflun frekari gagna sem varpað gætu ljósi á meinta vitorðsmenn mannsins. Brot hans þykir alvarlegt. Maðurinn kærði gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, en Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn á föstudag. Hann hefur viðurkennt vörslu á hluta af efnunum sem fundust, en kannast ekki við önnur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×