Innlent

Neitar sök og vill ekki tjá sig

Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Suðurlands yfir manni á þrítugsaldri sem grunaður er um fíkniefnasölu og kynferðismök við stúlku undir 14 ára aldri. Maðurinn var handtekinn á miðvikudaginn fyrir viku og úrskurðaður í gæsluvarðhald á fimmtudag, en það rennur út á morgun. Í dómskjölum kemur fram að lögreglan á Selfossi hafi frá 20. maí hlerað síma mannsins og hafi sú hlerun margsinnis leitt til handtöku fólks með talsvert magn fíkniefna. Sjálfur er maðurinn sagður hafa verið varkár í sölustarfsemi og við afhendingu efna. Við handtöku fundust í fórum mannsins tveir hassmolar og meintur skuldalisti vegna fíkniefnaviðskipta. Alls segist lögregla hafa hlerað um 1.900 símtöl í síma mannsins og fengið upplýsingar um fjölda kaupenda, auk stærri dreifingaraðila. Þá vaknaði grunur um að maðurinn hefði haft samræði við stúlku undir lögaldri og telur lögregla nauðsyn á skýrslutöku í Barnahúsi vegna þess. Maðurinn harðneitar sök og neitar að mestu að tjá sig um sakarefni. Brot hans eru sögð geta varðað allt að 12 ára fangelsi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×