Innlent

Dæmt fyrir hrottafengna nauðgun

42 ára gamall maður var dæmdur í þriggja ára fangelsi í gær fyrir hrottafengna nauðgun á fyrrum sambýliskonu sinni. Verknaðurinn stóð í um klukkustund í fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu að kvöldi mánudagsins 12. júlí í fyrra. Hann þarf að auki að greiða henni eina milljón króna í skaðabætur. Maðurinn reif konuna úr fötunum, ógnaði henni og þvingaði til samræðis bæði í svefnherbergi og inni á baði, en þar tróð hann einnig salernispappír í leggöng hennar. Konan hlaut af marbletti og hrufl, auk þess sem sauma þurfti með níu sporum sprungu fyrir ofan leggangaop hennar. Dómurinn tók ekki til greina neitun mannsins á verknaðinum, en hann kvaðst hafa komið ölvaður á heimili konunnar umrætt kvöld til að kvarta undan símaónæði. Dómurinn segir fjarstæðukennda skýringu mannsins, að konan hafi sjálf veitt sér áverka á kynfærum. Þá var maðurinn einnig dæmdur fyrir margvísleg umferðarlagabrot og fyrir að hafa í nokkur skipti haft í fórum sínum fíkniefni af ýmsum toga, en þau brot játaði maðurinn. Gerð voru upptæk 19,17 grömm af maríhúana, 3,84 grömm af hassi og 15,84 grömm af amfetamíni sem lögregla lagði hald á.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×