Innlent

Krefjast bóta vegna samráðs

Á morgun verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál félagsmanns Neytendasamtakanna á hendur einu olíufélaganna vegna meints taps af ólöglegu verðsamráði þeirra. Eggert Bjarni Ólafsson, lögmaður mannsins í málinu, sagði í gær ekki búið að negla niður á hendur hverju olíufélaganna þriggja, Esso, Ólís eða Skeljungs, málið yrði höfðað. Hann sagði þó ákveðnar líkur á að það yrði Olíufélagið, Esso. Kristinn Hallgrímsson, lögmaður Olíufélagsins, segir að félaginu hafi verið sent eitt innheimtubréf, sem borið hafi þess merki að þar gæti verið á ferð mál sem Neytendasamtökin hafi tekið upp á sína arma. "En því bréfi er búið að svara og hafna kröfunum," segir hann. Að sögn Jóhannesar Gunnarssonar, formanns Neytendasamtakanna, annast samtökin málið fyrir félagsmann sinn. "Og ef málið tapast þá berum við kostnað af málarekstrinum," segir hann. Vinnist málið, sem er nokkurs konar prófmál, er viðbúið að nokkur mál fylgi í kjölfarið frá fleirum og eins á hendur hinum olíufélögunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×