Innlent

Aukið fjármagn til umferðaröryggis

Stórauknu fjármagni verður á næstu fjórum árum veitt til umferðaröryggismála samkvæmt samningi sem Umferðarstofa og Ríkislögreglustjóri undirrituðu á blaðamannafundi í gær. Næstu fjögur ár verður 385 milljónum króna veitt árlega í aukið umferðaröryggi og árángur átaksins reglulega kynntur fyrir almenningi. Tilgangurinn er sá að fækka þeim sem látast eða slasast alvarlega í umferðarslysum. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sagðist á blaðamannafundinum vonast til að árángur átaksins yrði slíkur að áfram yrði veitt verulegu fjármagni í áróður og eftirlit til að auka umferðaröryggi. Fyrir hluta fjármagnsins mun embætti Ríkislögreglustjóra festa kaup á svokölluðum "eyewitness"-tækjum sem eru stafrænar upptökuvélar sem komið er fyrir í lögreglubílum til að auðvelda umferðareftirlit. Á fundinum kynnti svo Umferðarstofa nýja auglýsingaherferð þar sem sagt er frá þankagangi þeirra sem lenda í alvarlegum umferðarslysum þegar slysin verða og sagði Einar Magnús Magnússon upplýsingafulltrúi Umferðarstofu að markmiðið væri að uppræta þann hugsanagang.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×