Erlent

Sextán látnir í Mósúl

Sextán hið minnsta fórust í sjálfsmorðsárás í borginni Mósúl í Írak í morgun. Það voru írakskir hermenn sem voru skotmark árásarinnar skammt frá Mósúl. Maður með sprengibelti sprengdi sig í loft upp og skömmu síðar sprakk öflug bílsprengja. Talsmenn sjúkrahúss í Mósúl segir flesta hinna föllnu óbreytta verktaka sem unnu á herstöðinni. Vængur al-Qaida í Írak, sem lýtur stjórn Abu Musabs al-Zarqawis, lýsti tilræðinu á hendur sér. Þetta var ekki eina árás morgunsins í Mósúl: Maður ók bíl fylltum sprengiefni á höfuðstöðvar lögreglunnar í borginni og sprengdi sig í loft upp. Hluti byggingarinnar hrundi og fimm lögreglumenn fórust. Fjórtán eru sárir. Björgunarsveitir leita í rústunum sem stendur. Í gær fórust fjórir þegar bílsprengjuárás var gerð á bílalest lögreglustjórans í Mósúl. Lögreglan er algengt skotmark hryðjuverkamanna. Einn yfirmanna lögreglunnar í Bagdad var ráðinn af dögum í morgun þar sem hann var á leið til vinnu. Uppreisnarmenn réðust á lögreglustöð í vesturhluta Íraks í gær og drápu þar átta manns. Í norðurhluta landsins geisaði þriggja klukkustunda byssubardagi milli skæruliða og sveita Bandaríkjamanna og Íraka. Fimm fórust í sjálfsmorðsárás nærri heimili háttsetts lögreglumanns í borginni Samarra. Talsmenn hersveita segja uppreisnarmenn ekki hafa nægan kraft til að knésetja hersetuliðið og írakskar sveitir en að ríkisstjórn landsins gæti stafað veruleg hætta af þeim þegar kemur að brotthvarfi erlendra hersveita, sem ráðamenn í Bretlandi og Bandaríkjunum segja reyndar bæði ótímabært og að ekki sé rétt að setja nein tímamörk í því sambandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×