Innlent

Segir lögreglu hafa beitt harðræði

Lögreglan í Reykjavík handtók í fyrrinótt þrjá pilta á aldrinum fimmtán til sextán ára við verslun Select í Breiðholti grunaða um að hafa unnið skemmdarverk á húsum í nágrenninu. Samkvæmt upplýsingum lögreglu voru piltarnir ölvaðir og einn þeirra með hamar innanklæða. Móðir eins piltsins hafði samband við Fréttablaðið og segir farir sonar síns ekki sléttar. Hún segir hann hafa verið allsgáðan og á rölti með félaga sínum í hverfinu. Þeir hafi orðið vitni að harkalegri handtöku tveggja kunningja sinna við Select og pilturinn hafi nálgast lögreglumennina og hringt á neyðarlínuna vegna þess hversu hart var tekið á félögum hans. Þá hafi lögreglumaður stokkið á hann, hrifsað af honum símann og handjárnað hann. Hann var færður á lögreglustöð, bundinn á höndum og fótum og segist hafa mátt þola harðræði af hálfu lögreglumanna. Pilturinn hefur fengið áverkavottorð og ætlar að kæra lögregluna fyrir illa meðferð. Hann segist ekkert hafa með skemmdarverkin að gera. Lögregla vill ekki tjá sig um málsatvik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×