Innlent

Dæmd fyrir kókaínsmygl í hárkollu

Erlend kona á sjötugsaldri var í dag dæmd í eins og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að hafa flutt inn kókaín sem falið var í hárkollu sem hún bar. Konan var gripin af tollvörðum á Keflavíkurflugvelli í mars á þessu ári þar sem hún hafði falið 800 grömm af kókaíni í hárkollu sem saumuð hafði verið föst við hennar eigið hár. Konan var að koma frá Amsterdam í Hollandi þegar hún var stöðvuð á Keflavíkurflugvelli. Hún liðsinnti lögreglunni við rannsókn málsins og reynt var að hafa uppi á eigendum efnisins hér á landi en það gekk ekki eftir. Við rannsókn málsins kom í ljós að konan hafði tvisvar sinnum áður komið til landsins en hún var stöðvuð í mars á þessu ári. Hún hefur bandarískt og hollenskt vegabréf. Talið er að söluverð fíkniefnanna sem hún flutti til landsins sé í kringum þrjár milljónir króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×