Innlent

Lá hjálparvana í djúpum skurði

Björgunarsveitarmenn úr Húnavatnssýslum fundu á níunda tímanum í morgun húsfreyju af sveitabæ í grennd við Blönduós, þar sem hún lá hjálparvana og hrakin ofan í djúpum skurði. Konan hafði brugðið sé út um miðnæturbil til þess að fá sér frískt loft en þegar hún kom ekki inn aftur fór heimilisfólkið að grennslast fyrir um hana en án árangurs. Var þá haft samband við lögreglu á Blönduósi og björgunarsveitir og hófst umfangsmikil leit á fjórða tímanum í nótt. Um það bil sextíu leitarmenn með leitarhunda tóku þátt í leitinni auk þess sem leit hófst úr tveimur flugvélum senmma í morgun og til stóð að fjölga björgunarmönnum þegar konan fannst í skurðinum. Hún var köld og hrakin eftir vistina í skurðinum en svo vel vildi til að sáralítið vatn var í honum en aftur á móti leir og moldardrulla. Björgunarsveitarmenn náðu konunni upp úr skurðinum og var hún flutt í sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Blönduósi þar sem hún nýtur nú aðhlynningar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×